Færsluflokkur: Dægurmál

"stuðningsmaður Samfylkingarinnar"

Ég hef nú ekki skrifað hér í háa herrans tíð - hef ekki fundið hjá mér neina þörf til þess!  En þar sem ég hafði marglýst yfir stuðningi mínum við Samfylkinguna hérna á síðunni finnst mér rétt að það komi fram að ég sagði mig úr Samfylkingunni og stjórn samfylkingarfélags Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu um leið og Icesave hafði verið samþykkt á Alþingi.  Lýsti í kjölfarið yfir frati á þetta lið sem situr þar sem fastast á sínum rassi!

 


Vöndum til verka!

Mér finnst ég nú þurfa að byrja á því - eins og áður - að segja frá því að ég er stuðningsmaður Samfylkingarinnar!  Það hefur nú ekki endilega verið auðvelt undanfarna mánuði, en fer batnandi.  Nú finnst mér þó Samfylkingarfólk ekki mega hlaupa upp til handa og fóta þó að Framsóknarmenn vilji skýrari málefnasamning.

Það er gríðarlega mikilvægt á þessum tímapunkti að ganga hreint til verks - það er ekki langur tími til stefnu, en komandi stjórn fær ekki nokkurn vinnufrið nema það sé skýrt og vel upplýst að hverju hún muni vinna á þessum tíma.

Nú er rætt um það að Framsóknarflokkurinn skilji ekki hugtakið hlutleysi og að þeir misskilji stöðu sína.  En þeir lofuðu því aldrei að vera hlutlausir - þeir sögðust hins vegar tilbúnir að verja stjórn S og VG falli að gefnum ákveðnum skilyrðum.  Þeir hafa sett sín skilyrði og að því er virðist ekki ósanngjörn - í fjölmiðlum kemur fram að þeir vilji sjá hlutina skýrar setta fram í málefnasamningi, hann hafi verið of almennt orðaður og undir það geti þeir ekki skrifað.

Nú, frekar en nokkru sinni, er mikilvægt að við vöndum til verka - að stjórnvöld og þjóðin öll viti að hverju er stefnt á næstu mánuðum, hver verkefnin eru og hvernig þau verða unninn.  Við ættum sennilega að þakka Framsóknarmönnum, frekar en að lasta þá, fyrir að hægja aðeins á okkur og krefjast betri vinnubragða.  Þjóðin hefur liðið alltof mikið fyrir, oft á tíðum, forkastanleg vinnubrögð fyrri ríkisstjórnar.


mbl.is Ósætti um aðgerðirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvernig á að gera það?

Það er uppi skrýtin staða í íslenskum stjórnmálum - ríkisstjórn sem á bjarta framtíð að baki er að hverfa frá!  Hún lagði upp á björtum uppgangstímum - þar sem kannski var auðvelt að stjórna, enda allt í gúddí.  Það verður bæði skelfilegt og spennandi í senn að horfa á hverju fram vindur í íslenskum stjórnmálum á næstu dögum.

Mér finnst þessi hugmynd að Jóhanna Sigurðardóttir leiði ríkisstjórn nokkuð spennandi - ég er nú ung að árum en man samt eftir því þegar hún steig upp gegn þeim sem sátu í bankastjórastólum og gagnrýndi þá harkalega.  Hún hefur heldur ekkert legið á skoðunum sínum um seðlabankastjóra og þá stofnun almennt.  Hún hefur líka sýnt það með sínum verkum að hún er bæði skelegg og óhrædd við breytingar.  En hvort af þessu verður veit enginn - en þetta er vissulega áhugaverður kostur.  Hennar tími loksins komin!

Það yrði líka gaman að sjá Steingrím J. í ábyrgðarstöðu í ríkisstjórn - hann hefur verið óspar á gagnrýnina undanfarin ár og sérstaklega frá því bankarnir féllu í október.  Nú er komið að honum að sýna það að hann hafi eitthvað uppi í erminni sem virkar betur en það sem þegar hefur verið reynt.  Það verður líka mjög áhugavert að sjá hvernig fylgi flokksins reyðir af setjist flokkurinn í ríkisstjórn!

Það  er síðan að vissu leiti sterkur leikur hjá Framsóknarflokknum að vilja ekki setjast í ríkisstjórn á þessum tímapunkti - sumir gætu þó sagt að þeir væru að koma sér undan því að takast á við þau erfiðu verkefni sem framundan eru.  En auðvitað er það rétt að flokkurinn þarf að endurnýja umboð sitt til þess að sinna slíkum verkum - þar hafa orðið gífurlegar mannabreytingar og ljóst að fyrir kosningarnar í vor verða gerðar verulegar breytingar á því hverjir taka þar sæti á framboðslistum.

Ég er fylgismaður Samfylkinginarinnar en verð þó að segja að mér finnst nokkuð kosningafas á þeim þessa dagana - verið að horfa aðeins of langt fram á veginn!  Nú þegar ljóst er að kosningar eru í nánd er reynt að hífa upp vinsældirnar með því að ganga að kröfum þjóðarinnar - þingmenn, sem hafa verið hluti af stjórnarsamtarfinu allt frá falli bankanna, stíga nú fram og segja það nauðsynlegt að stjórnvöld hlusti á raddir þeirra sem mótmælt hafa stjórnvöldum í einar 16 vikur samfellt!

Læt þessar hugleiðingar mínar duga í bili - það verður virkilega áhugavert að sjá hvernig spilast úr framhaldinu!


mbl.is Skapa þarf samfélagslegan frið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengið að kröfum þjóðarinnar!

Ég ætla að byrja á því að taka fram að ég var mikill stuðningsmaður Björgvins fyrir síðustu kosningar, gekk í Samfylkinguna og hvaðeina og hef nú tekið sæti í stjórn samfó á mínu svæði.  EN það er alveg sama hver í hlut á þegar klúðrið verður svona gígantískt - fólk verður einfaldlega að stíga til hliðar.  Mér finnst hann gera rétt í dag og hans síðasta verk er að skipta út í Fjármálaeftirlitinu - í dag gekk Björgvin að kröfum þjóðarinnar.

Nú vonar maður að dagurinn beri það í skauti sér að Seðlabankastjórn verði vikið frá, fagmaður verði fenginn í viðskiptaráðuneytið (utanþingsmaður), Árna Matt verði skipt út fyrir fagmann á sviði hans ráðuneytis og að Ingibjörg Sólrún tilkynni það að hún muni einnig víkja til hliðar - rétt eins og Geir!

Nú gefst einstakt tækifæri til að stokka upp í íslenskum stjórnmálum - fá inn nýtt og ferskt fólk, ungt fólk sem ekki tengist gömlum valdaklíkum!  Ég vona að komandi prófkjör - vona að menn hafi vit á því að bjóða ekki upp á annað! - gefi þær niðurstöður að fólk hafi einhverja von til þess að hér verði breytingar.

Það verður spennandi að sjá hvað dagurinn ber í skauti sér Smile


mbl.is Björgvin segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stoltur Íslendingur!

Í dag er ég stoltur Íslendingur - ég er svo stolt af öllu fólkinu sem sagði nei við ofbeldi og skemmdarverkum!  Ég er sérstaklega stolt af þeim sem tóku af skarið í fyrri nótt og stilltu sér upp fyrir framan lögreglumenn til að skýla þeim fyrir grjótkastinu.  Okkur finnst það kannski sjálfsagt, en það hefur krafist gífurlegs hugrekkis af hálfu þessa hóps - að stíga út úr fjöldanum, þar sem andrúmsloftið hefur eflaust verið rafmagnað, að þora að stíga fram gegn ofbeldisseggjum í ham og segja "hingað og ekki lengra".

Appelsínugula hreyfingin er auðvitað sprottin af þessu - fólk vill mótmæla og finnst rétt að mótmæla, en ekki með ofbeldi og skemmdarverkum!  Ég er líka ánægð með viðbrögð lögreglunnar, að minnka viðbúnaðinn verulega og hverfa síðan nánast úr sjónmáli.  Hávaðinn var engu að síður mikill og fólk kom sínum skoðunum á framfæri - þessu er mikilvægt að halda áfram, að sofna ekki á verðinum!

Ég fann ekki appelsínugulu slæðuna sem ég á einhversstaðar inni í skáp, leita betur í dag, held ég hafi hana bara um hálsinn næstu daga.  Ég hef ekki tök á að skunda til höfuðborgarinnar til að taka þátt, svo ég stunda þögul mótmæli heima í stofu Wink


mbl.is Friðsamleg mótmæli í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak!

Þetta lýst mér á - því fleiri aðferðir til að sýna skoðun sína á almannafæri því betra.  Ég ætla að leita uppi eitthvað appelsínugult í fataskápnum mínum og hafa það um hálsinn næstu daga - hvert sem ég fer!
mbl.is Appelsínugul og friðelskandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum loga!

Þetta er góð hugmynd - með þessu getum við sýnt hvort öðru samstöðu.  Ég mun kveikja á kertum við mitt heimili næstu daga!
mbl.is Hvetja til að kveikja á kertum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægan, hægan!

Eigum við ekki að segja staðar numið núna - hrista aðeins hausinn og skankana og hvíla okkur smávegis?  Halda síðan áfram af fullum krafti, með því að berja potta og pönnur, standa þögul eða hvað eina annað - allt annað en að nota skemmdarverk og ofbeldi til að koma skoðunum okkar á framfæri.  Ég segi skoðunum okkar - því ég held að upp til hópa séum við sammála þeirri kröfu að fram fari kosningar og að hreinsað verði til í hinum ýmsu stofnunum sem tengjast fjármálageiranum.

Ég hef látið það vera, hingað til, að tjá mig um starfsaðferðir lögreglunnar.  Ástæðan er sú að mér finnst erfitt að meta það, sitjandi úti í sveit, hvort lögreglan hafi beitt lágmarksvaldi við allar aðstæður.  Lögreglan vill meina það - en maður hefur séð myndbandsbrot af lögreglumanni sem spreyjar piparúða yfir girðingu, að fólki sem honum virðist ekki standa nokkur ógn af.  Við verðum þó að reyna að skilja það að lögreglan er að sinna sínu starfi - og oft hefur mér sýnst að lögreglumenn hafi mikið langlundargeð, þar sem þeir standa í röð og og hlusta á fúkyrðaflaum meðan yfir þá rignir matvælum.

Ef við horfum á einstakan lögreglumann sem manneskju, manneskju sem hefur þurft að þola það sama og við hin.  Húsnæðislánið hefur hækkað, myntkörfulánið rokið uppúr öllu valdi, búið að skera niður alla auka- og yfirvinnu, kostnaður við rekstur heimilisins eykst með hverjum deginum.  Tökum þessa manneskju úr búningnum og stillum henni upp á Austurvelli - þykir okkur réttlætanlegt að umkringja hana, grýta hana með eggjum og skyri, skyrpa á hana og tala niður til hennar?

En lögreglumaðurinn er í búningnum að sinna starfi sínu og þar af virðist leiða að svona megi koma fram við þessa manneskju.  Í útvarpinu í morgun talaði maður sem sagði meiðsl þjóðarinnar mun alvarlegri en þau sem lögreglumenn urðu fyrir í nótt, ríkisstjórnin hefði beitt þjóðina mun alvarlegra ofbeldi.  Það má rétt vera - en eigum við þá að hengja skilti framan á lögreglumenn sem á stendur "lemdu mig ef þú ert ósáttur við ríkisstjórnina"?  Á lögreglan að verða að skotskífu fyrir almenning vegna vanhæfis ríkisstjórnarinnar?

Þetta er sennilega orðin langur og leiðinlegur lestur - og einhæfur.  Ég verð að taka fram að ég er ekki að mæla starfsaðferðum lögreglunnar bót - ég hef ekki forsendur til að meta þær, veit bara að mér finnst langt gengið!

Að lokum þakka ég málefnaleg innlegg í mína umræðu hingað til og vona að fólk geti áfram sett skoðanir sínar fram á skeleggan en kurteisan hátt.


mbl.is Lögreglumaður enn á sjúkrahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er alvöru við þetta?

Mikil er reiðin sem ríkir í samfélaginu!  Ég virðist standa langt utan við þessar aðstæður, búandi 70 kílómetra utan höfuðborgarinnar.  Kannski er það vegna þess að ég hef ekki misst vinnuna og reyndar engin mér nákomin, kannski geng ég enn um með þá von í brjósti að úr ástandinu leysist og ég geti aftur snúið til fyrri lífshátta, átt smá afgang um hver mánaðarmót í stað þess að stækka bara mínusinn!

Sennilega er það þessi von sem gerir það að verkum að ég hef ekki þörf fyrir að mótmæla!  Kannski hafa þeir sem mæta til mótmæla misst vonina og eiga ekkert eftir nema reiðina - og við vitum öll hvernig okkur líður þegar við verðum mjög reið.  Tilfinningin sest að í brjóstinu, ólgar og rís og hnígur í takt við andardráttinn.  Þá þarf að losa um reiðina!  Að setjast framan við stjórnarráðið undir borðanum "við sitjum ekki aðgerðarlaus" og prjóna eða lesa í bók finnst mér sniðugt.  Að umkringja Alþingishúsið og haldast í hendur í þögn finnst mér magnað.  Að mæta þúsundum saman og berja potta og pönnur finnst mér frábært!  Að fremja skemmdarverk og að sýna Alþingishúsinu og lögreglumönnum óvirðingu finnst mér sorglegt.

STOP - áður en einhverjum dettur í hug að að kalla mig veruleikafirrtan afturhaldshlunk og spillingarsinna, stuðningsmann spilltrar ríkisstjórnar og eitthvað þaðan af verra - eins og ég hef séð á bloggsíðum í morgun, langar mig að minna á að við erum öll í sama liði! 

Við búum öll í þessu landi sem hefur verið siglt í kaf!  Það er varla hægt að vera stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar - sama hvar maður stendur í flokki.  Ég vona að ég sé ekki veruleikafirrt þó ég beri virðingu fyrir Alþingishúsinu sem slíku og lögreglunni sem stofnun - það þýðir ekki að ég sé yfir mig hamingjusöm með vinnubrögðin á hvorugum staðnum!

En af hverju finnst mér ég þurfa að réttlæta þessa skoðun mína?  Af því Íslendingar snúast nú gegn hver öðrum og níða skóinn af þeim sem ekki erum þeim sammála, í hvaða tilgangi?  Við hljótum þó að vera öll sammála um það að eitthvað þarf að gerast - við höfum bara mismunandi skoðanir á því hvað það á að vera.

En ég verð að spyrja hvað er svona alvöru við mótmælin í gær og í nótt?  Mér fannst alvöru að þingstörf væru trufluð með hávaða - að hátt í 2000 manns mættu í miðborgina til að vera með læti!  Ég gladdist og hugsaði með mér "nú lætur fólk sko heyra í sér".  En mér finnst ekkert alvöru við það að kveikja bál, sprengja flugelda, brenna almenningseigur (borð og bekki).  Verður það áfram alvöru þegar menn ganga skrefinu lengra og uppi verður ástand líkt og í Kaupmannahöfn og Frakklandi fyrir ekki svo margt löngu.  Þegar her manns gekk um götur og brenndi bíla, braut rúður og framdi ýmiskonar skemmdarverk?  Er það í alvörunni það sem við viljum sjá?

Ekki reyna að segja mér að það sé eina leiðin - að ríkisstjórnin skilji ekkert annað en ofbeldi.  Það getur vel verið að boðað verði til kosninga fyrr en síðar og vonandi verður það gert - en það verður að mestum hluta sama fólkið sem aftur sest á þing!  Og sama fólkið sem aftur sest í ráðherrastóla og sama fólkið verður enn við stjórnvölinn í eftirlitstofnunum samfélagsins.  Hverjar verða þá breytingarnar og hverju hafa mótmælin öll þá í raun skilað?

Að lokum - ég vona að þeir sem þetta lesi og vilji gera athugasemdir við mín skrif og skoðanir geti sett sjónarmið sín á framfæri án þess að vera með persónulegt skítkast eða önnur almenn leiðindi Woundering 


mbl.is Mótmæli fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er fólk - að eiga við fólk!

Ég er gráti næst!  Það er dagljóst að ósk mín frá því fyrr í dag - að allir, lögreglumenn sem mótmælendur, kæmust heilir heim - verður ekki að veruleika.  Ég átti ekki aðeins við líkamleg meiðsl - heldur líka það að allir gætu verið stoltir af framkomu sinni og ánægðir með afrakstur dagsins.  Mótmælendum finnst þeir kannski ná góðum árangri þegar lögregla beitir piparúða og handtekur fólk - ég veit það ekki.  Trúi því samt að það sé ekki óskastaða nokkurs lögreglumanns að þurfa að standa keikur og leyfa fólki að kasta í sig skyri og eggjum.  Þetta er fólk að eiga við fólk!  Við megum aldrei gleyma því, mótmælendur eru fólk - grímuklætt eður ei,  og lögreglumenn eru fólk, fólk í einkennisbúningum - að sinna vinnunni sinni!

Ég veit ekki hvað ég á að segja meira, vísa í færsluna mína frá því fyrr í dag!  Ber enn þá von í brjósti að ekki fari verr - nógu illa er farið nú þegar!


mbl.is Allt á suðupunkti við Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband