Hvað er alvöru við þetta?

Mikil er reiðin sem ríkir í samfélaginu!  Ég virðist standa langt utan við þessar aðstæður, búandi 70 kílómetra utan höfuðborgarinnar.  Kannski er það vegna þess að ég hef ekki misst vinnuna og reyndar engin mér nákomin, kannski geng ég enn um með þá von í brjósti að úr ástandinu leysist og ég geti aftur snúið til fyrri lífshátta, átt smá afgang um hver mánaðarmót í stað þess að stækka bara mínusinn!

Sennilega er það þessi von sem gerir það að verkum að ég hef ekki þörf fyrir að mótmæla!  Kannski hafa þeir sem mæta til mótmæla misst vonina og eiga ekkert eftir nema reiðina - og við vitum öll hvernig okkur líður þegar við verðum mjög reið.  Tilfinningin sest að í brjóstinu, ólgar og rís og hnígur í takt við andardráttinn.  Þá þarf að losa um reiðina!  Að setjast framan við stjórnarráðið undir borðanum "við sitjum ekki aðgerðarlaus" og prjóna eða lesa í bók finnst mér sniðugt.  Að umkringja Alþingishúsið og haldast í hendur í þögn finnst mér magnað.  Að mæta þúsundum saman og berja potta og pönnur finnst mér frábært!  Að fremja skemmdarverk og að sýna Alþingishúsinu og lögreglumönnum óvirðingu finnst mér sorglegt.

STOP - áður en einhverjum dettur í hug að að kalla mig veruleikafirrtan afturhaldshlunk og spillingarsinna, stuðningsmann spilltrar ríkisstjórnar og eitthvað þaðan af verra - eins og ég hef séð á bloggsíðum í morgun, langar mig að minna á að við erum öll í sama liði! 

Við búum öll í þessu landi sem hefur verið siglt í kaf!  Það er varla hægt að vera stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar - sama hvar maður stendur í flokki.  Ég vona að ég sé ekki veruleikafirrt þó ég beri virðingu fyrir Alþingishúsinu sem slíku og lögreglunni sem stofnun - það þýðir ekki að ég sé yfir mig hamingjusöm með vinnubrögðin á hvorugum staðnum!

En af hverju finnst mér ég þurfa að réttlæta þessa skoðun mína?  Af því Íslendingar snúast nú gegn hver öðrum og níða skóinn af þeim sem ekki erum þeim sammála, í hvaða tilgangi?  Við hljótum þó að vera öll sammála um það að eitthvað þarf að gerast - við höfum bara mismunandi skoðanir á því hvað það á að vera.

En ég verð að spyrja hvað er svona alvöru við mótmælin í gær og í nótt?  Mér fannst alvöru að þingstörf væru trufluð með hávaða - að hátt í 2000 manns mættu í miðborgina til að vera með læti!  Ég gladdist og hugsaði með mér "nú lætur fólk sko heyra í sér".  En mér finnst ekkert alvöru við það að kveikja bál, sprengja flugelda, brenna almenningseigur (borð og bekki).  Verður það áfram alvöru þegar menn ganga skrefinu lengra og uppi verður ástand líkt og í Kaupmannahöfn og Frakklandi fyrir ekki svo margt löngu.  Þegar her manns gekk um götur og brenndi bíla, braut rúður og framdi ýmiskonar skemmdarverk?  Er það í alvörunni það sem við viljum sjá?

Ekki reyna að segja mér að það sé eina leiðin - að ríkisstjórnin skilji ekkert annað en ofbeldi.  Það getur vel verið að boðað verði til kosninga fyrr en síðar og vonandi verður það gert - en það verður að mestum hluta sama fólkið sem aftur sest á þing!  Og sama fólkið sem aftur sest í ráðherrastóla og sama fólkið verður enn við stjórnvölinn í eftirlitstofnunum samfélagsins.  Hverjar verða þá breytingarnar og hverju hafa mótmælin öll þá í raun skilað?

Að lokum - ég vona að þeir sem þetta lesi og vilji gera athugasemdir við mín skrif og skoðanir geti sett sjónarmið sín á framfæri án þess að vera með persónulegt skítkast eða önnur almenn leiðindi Woundering 


mbl.is Mótmæli fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Barasta alveg sammála þér! 

Guðrún Ægisdóttir (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 08:40

2 identicon

Já kannski hugsarðu svona akkúrat vegna þess að þú ert ekki búin að missa vinnuna, heimilið eða spariféð þitt né getur ekki séð fyrir þér hve mikið af skuldum leggst á þig og þína. Er betra að hanga heima og tuða yfir því að stjórnvöld veltist um í spillingu og aðrir menn sem hafa borið ábyrgð á almannafé, á fólk í alvöru að þegja yfir því? Ótrúlegt sjónarmið, en gjörðu svo vel hafðu þína skoðun.

Dóra (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 08:42

3 identicon

Heldur þú að einhver sæt mótmæli skili einhverju... þau munu skila engu, þú verður líka að athuga að fólk er að berjast fyrir lífi sínu og barna sinna.... munt þú haldast í hendur til þess að verja slík verðmæti þegar þú veist að það mun aldrei virka, það mun bara verða valtað yfir þig.

DoctorE (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 08:47

4 Smámynd: corvus corax

Það sem er "alvöru" við þetta er það að ef enginn gerir neitt, gerist ekkert. Mótmæli í orði hafa gjörsamlega verið hundsuð af gjörspilltri ríkisstjórninni frá bankahruninu. Þess vegna verður að taka til þeirra aðgerða sem tekið er eftir.

corvus corax, 21.1.2009 kl. 08:48

5 Smámynd: Anna Guðný

Alveg er það dæmigert að einhver komi með það að maður ekki "vit" á neinu af því maður hefur ekki misst vinnuna. Hef fengið þær sjálf. Mikið þætti mér gaman að það yrði gerð  skoðanakönnun á því niðri í bæ og fólk af hverju það sé að mótmæla og hverjar aðstæður þeirra séu. Held að fólk yrði undrandi yfir svörunum.

Hafðu það gott í dag.

Anna Guðný , 21.1.2009 kl. 08:52

6 Smámynd: Helga Rós Sveinsdóttir

Veistu.... ég er svooo mikið samála þér, ég bý 450km í burtu og fæ fregnir af svona athæfum í gegnum fréttamiðlana.  Oftast (sem betur fer) finn ég fyrir baráttuandanum, kreppi hnefann útí loftið og hugsa "koma svo, áfram lýðræðið" en þegar gengið er of langt eins og með grjótkasti, skemmdarverkum og ofbeldi langar mig ekki að vera kennd við "lýðræðið" sem berst fyrir réttlætinu.

Ég skil þau samt samt ofur vel, það kemur alveg yfir mig þessi örvænting og MIKILL pirringur að nokkrir "útvaldir" einstaklingar sem drógu heila þjóð, kynslóðir, ofaní hringiðu óvissu, óréttlætis og síðast en ekki síst forugt skuldafen þá langar mig mikið til að geta staðið andspænis samviskulausu-sjálfselsku-græðgis-hver um sig einstaklingunum og spyrja (og hrista aðeins kannski) "hvað gerði ég og mín fjölskylda til að eiga þetta skilið" ?!

Helga Rós Sveinsdóttir, 21.1.2009 kl. 08:58

7 identicon

Það er alvöru að mótmæla. En mér finnst óhugnanlegt að sjá fólk sem er að ögra lögreglunni. Fólk sem stendur fyrir framan lögreglumann og öskrar framan í hann fúkyrðum. Grítir hann svo með skyri og eggjum. Hvað gerði þessi einstaki lögreglumaður af sér annað en að standa vörð um Alþingi Íslendinga?

Mótmæli eru góð en múgæsing verður það aldrei!

Magga (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 09:07

8 identicon

Ég hef mætt til að mótmæla hvern einasta laugardag síðan mótmælin hófust. Ég hef þó ennþá vinnu og hef ekki orðið fyrir neinum sérstökum erfiðleikum vegna kreppunnar, ennþá. Mér dettur þó ekki í hug að sitja heima í "sófamótmælum" (lesist: horfa á sjónvarpið og tuða yfir ástandinu en gera ekki neitt). Ég fer til að mótmæla fyrir hönd barnanna minna sem eiga mögulega yfir sér ömurlega framtíð vegna þessarar spillingar, fyrir hönd foreldra minna sem munu búa við skert kjör í ellinni og síðast en ekki síst fer ég til að sýna samstöðu öllum þeim sem þegar hafa lent illilega í kreppunni. Ég fer til að sýna að mér sé ekki sama um ástandið í þjóðfélaginu.

Bestu kveðjur frá höfuðstað Norðurlands.

Kveðja, María

María (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 09:12

9 identicon

Ég get ekki verið meira sammála þér Kristín. Ég er síður en svo ánægður með aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og orðinn langþreyttur og reiður á þeim þagnarmúr sem umlykur þá. Þeir segjast vera að vinna á fullu við að leysa málin, en ég bara spyr, vinna hvað, á hvaða sviðum og hverjir eru það nákvæmlega sem eru að vinna?????

Og þrátt fyrir það að ég hafi ekki misst vinnuna, allavega ekki ennþá, þá er ég til í að vera með í mótmælum til að koma þeim skilaboðum til stjórnvalda að við viljum fá svör og við viljum fá aðra til að stjórna vinnunni héðan í frá. Lágmarkskrafa sem gera verður til stjórnvalda í dag er að tekið verði til í ráðherralistanum og menn axli ábyrð með því að víkja sæti.

Hvað flokkinn minn, þ.e. Sjálfstæðisflokkinn varðar, þá er staðreyndin einföld. Aðal málflutningur flokksins hefur í gegnum áratugi verið: ÁBYRG FJÁRMÁLASTJÓRN. Jafnframt því hafa menn verið varaðir við því að kjósa yfir sig vinstri flokkana því það sé ávísun á fjármálaóreiðu. Jæja nú erum við mitt í þeirri stærstu fjármálaóreiðu sem yfir íslendinga hefur gengi, og hver var þá í brúnni og hefur stýrt skútunni s.l. ég veit ekki hvað mörg ár????? Er ekki lágmark að maður geri þá kröfu að þeir sem voru í brúnni þegar þetta gerðist og í helsta aðdraganda þess taki pokann sinn ásamt þeim sem áttu að vera þeim til halds og trausts úr embættismannastéttinni???

En mig langar líka til að spyrja Dóru og DoctorE út af "alvöru" skrifum þeirra hér: hvað er svona alvöru við það að eyðileggja eigur saklausra einstaklinga eða ríkiseignir (þ.e. eignir sem við allir íslendingar) eigum. Hvað kemur ykkur til að trúa því að það að stunda mótmæli með því að stunda eyðileggingar á eigum samborgara ykkar verði til þess að frekar sé hlustað á ykkur??? Mig myndi líka langa til að fá svar við einu atriði sem maður sá í mótmælunum í gær, en það er hvaða tilgangi það þjóni eða hverju viðkomandi var að mótmæla þegar hann gekk á eftir lögreglunni og sló trésleif í hjálm lögregluþjónsins ??? Svona háttsemi gerir ekkert annað en setja skríls-stimpilinn á mótmælin og gefa þeim sem síst skyldi rök fyrir því að mótmælin séu ekkert annað en hópaðgerðir ólátaseggja sem stundi það að reyna að efna til átaka og slagsmála. Eða viljið þið kannski að við tökum almennt upp þann sið ef við erum óánægð með eitthvað að fara og eyðileggja eins mikið og hægt er til þess að fá fram það sem við viljum? Eigum við að taka upp stjórnkerfi Sómalíu, þar sem ekkert yfirvald er og fáeinar glæpaklíkur hafa tekið öll völd í landinu og stjórna því með harðri hendi og ofbeldi???

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 09:22

10 Smámynd: Kristín Ósk Ómarsdóttir

Ég vil byrja á því að þakka fyrir málefnaleg innlegg

Dóra - ég held þú hafir misskilið mig aðeins, ég styð mótmælin almennt - er stoltur Íslendingur þegar fólk mætir þúsundum saman til að láta vita af sér.  Eins og ég sagði - finnst alveg frábærar margar þær leiðir sem fólk hefur notað til mótmæla, hvort heldur sem er í þögn eða með hávaða.

Spurningin sem ég hins vegar set fram er þegar gengið er jafn langt og við höfum orðið vitni að núna - með því t.d. að kveikja bál og draga þangað almenningseigur og brenna, og ef (ég vona aldrei) gengið verður lengra, ef heiftin verður slík að fólk leyfir sér að beita ofbeldi og skemmdarverkum gagnvart öðrum borgurum og eigum þeirra - hvar stöndum við þá, hverju skilar slíkt?

Ég er svo sem enginn sófakartafla - ég vinn gegn ástandinu á minn hátt, ég hef lýst mínum viðbrögðum sem atvinnurekandi í færslu hér áður - lítið innlegg, en það sem ég get gert!  Ég vinn síðan með mínu stjórnmálafélagi og vonast til að ná fram breytingum þar.  Það er kannski einskis nýt aðferð - en sú sem ég er tilbúin að fara og hef tök á að fara.

Kristín Ósk Ómarsdóttir, 21.1.2009 kl. 09:22

11 identicon

Sæl Kristín

Þetta með sófamótmælin var ekkert ætlað þér. :-)

Þetta er bara mín tilfinning síðustu vikurnar að margir sem ég tala við eru drulluósáttir við ástandið en sitja svo bara heima og tuða yfir því. Mótmælin á Akureyri hafa eingöngu farið friðsamlega fram, engin læti þar og ég vona að það haldist þannig.Ég styð ekki ofbeldi í neinni mynd en við sem enn höfum það nokkuð gott verðum líka að skilja að reiðin í þjóðfélaginu er orðin rosaleg og það hafa ekki allir hemil á sér.

Kveðja, María

María (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 09:37

12 identicon

Já, bömmer ef fólk er að skemma bekki...

Ég vil meina að lögreglan hafi ekki verið undirbúin fyrir ákafann í fólki í gær, mótmælin hófust sem afar friðsöm, en jú, hávær og áköf mótmæli. En eftir því sem lögreglan beytti meira og meira valdi varð fólk brjálað. Ég var beðinn um að færa mig snemma um daginn og jafnvel þó að það hafi verið EKKERT sem lagalega neyddi mig til að færa mig, gerði ég það (aðallega vegna þess að lögreglumaðurinn var voða aumur og kurteis og viðurkenndi að fyrrabragði að hann væri að vinna „skítadjobb“). Seinna um daginn var öskrað á mig að færa mig aftar og þar sem sá lögreglumaður var æstur og ógnandi (og ég ennþá í algjörum rétti) gerði ég það ekki og var meisaður samstundis.

Þannig var þetta, þú færð tvo möguleika a) Að færa þig þegar þú ert í rétti og ert að reyna að sýna afdráttarlausa afstöðu gegn yfirvaldinu (sem er ennþá stærsti skríllinn munið!!) eða b) Vera laminn eða meisaður.

Eftir að ég hafði verið meisaður (sem slapp af því að ég fékk sprautuna í munninn og fíla sterkan mat) var ég alveg sallarólegur, hélt bara áfram að mótmæla í góðum gír. En það eru ekki allir jafn stóískir og ég. Þegar lögreglan var búin að beita b)-möguleikanum á fjöldamarga saklausa mótmælendur þá fyrst fór harka að færast í leikinn. Þá fóru rúður að brotna og egg að dynja á lögreglumönnum.

Nú spyr ég: Þarf almúginn að taka á sig alla ábyrgð fyrir æsinginn, eða gæti jafnvel verið að lögreglan hafi gengið of langt og átt þannig hlut í að skapa þetta „ófremdarástand“?

Ég vil að minnsta kosti meina að fréttaflutningur sé ekki búinn að setja þá sem ekki voru á svæðinu inn í atburðarásina fyllilega. Þið þurfið því miður að lesa fréttir um brennda bekki og missa trú á baráttunni! En nei! Við gefumst ekki upp beibís!

Sic semper tyrannis!

Gunnar J. (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 09:48

13 Smámynd: Kristín Ósk Ómarsdóttir

Sæl María - ég tók þetta ekkert til mín   Fannst ég bara þurfa að útskýra mína afstöðu aðeins betur.  Mér finnst frábært að þú skulir ferðast alla þessa leið vikulega til að taka þátt í mótmælum - sjálf vonast ég til að komast fyrr en síðar til höfuðborgarinnar á þessum dögum, því ég er viss um að andrúmsloftið er magnað!

Kristín Ósk Ómarsdóttir, 21.1.2009 kl. 09:50

14 identicon

Sæl Kristín

Bara að leíðrétta smá misskilning. Ég þarf ekki að fara til borgarinnar til að mótmæla. Ég er á Akureyri og hér hafa sko verið friðsamleg mótmæli í nokkrar vikur. Á mínu heimili er öllu kastað til hliðar og börnin sett í pössun á laugardögum klukkan 15.

Kveðja, María

María (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 09:59

15 identicon

Ég verð að tjá mig um eitt í sambandi við það sem Gunnar J. skrifar:

Þegar lögreglan var búin að beita b)-möguleikanum á fjöldamarga saklausa mótmælendur þá fyrst fór harka að færast í leikinn. Þá fóru rúður að brotna og egg að dynja á lögreglumönnum.

Þetta er ekki rétt, ég var þarna þegar það var búið að brjóta rúður og kasta eggjum og þvíumlíku í það sem fólki sýndist, og á þeim tíma var lögreglan einungis að standa vörð og ekki með neinar kylfur eða neitt meis á lofti.

Kveðja, María nr. 2

María nr. 2 (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 15:32

16 identicon

Jæja, ætla það megi ekki endalaust ræða hvort kom á undan; lögguofbeldið eða eggið? Ég varð a.m.k. ekki var við það (þ.e.a.s. að eggjum væri kastað í lögreglumenn en ekki í húsið sjálft) sem segir sína sögu.

Gunnar J. (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 17:36

17 identicon

Sæl vinkona. Það er harka að færast í leikinn og greinliegt að fólk er á barmi örvæntingar. Mér finnst leitt að sjá eyðileggingu á almanna eign en aftur á móti finnst mér frábært að fólk standi upp og láti ekki troða á tærnar á sér lengur. Enda er það fólkinu í landinu að þakka að kostningarumræðan er uppi á borðinu.

Hulda Lára (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 21:25

18 identicon

Það er rétt hjá þér Hulda, sennilega væri ekki uppi þessi krafa um kosningar - ef ekki væri fyrir þessi mótmæli!

Kristín Ósk (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband