20.1.2009 | 14:16
Hvernig ætli þetta endi?
Hér sit ég langt utan þess skarkala sem nú skekur Austurvöll - ég er samt uggandi þegar ég skoða myndir af reiðum mótmælendum og óeirðarlögreglu. Ég styð réttinn til mótmæla og ég styð lögreglu sem sinnir störfum sínum - en við höfum orðið vitni að því oftar en einu sinni á undangengnu ári hvernig múgæsing, á báða bóga, verður til þess að hlutirnir fara úr böndum. Ég vona að lögreglan hafi lært af mótmælunum við Rauðavatn síðastliðið vor - horfandi á atburðina í sjónvarpi sá ég hvernig viðbúnaður egndi mótmælendur, sem þá gengu lengra - lögreglan brást við með meiri vígbúnaði og svo koll af kolli þar til upp úr sauð.
Ef ég sæti enn á skólabekk Háskóla Íslands hefði ég eflaust laumast niður á Austurvöll í dag, stæði eflaust einhvers staðar bakatil og fylgdist álengdar með. Rannsóknir hafa reyndar sýnt að ólíklegasta fólk sogast inn í svona atburði og fremur jafnvel hroðalega verknaði í skjóli nafnleyndar múgsins - svo kannski væri ég komin upp að veggjum Alþingishússins.
Ég get ímyndað mér þær tilfinningar sem magnast nú í brjóstum mótmælenda - reiðin ólgar og spurt af hverju senda þurfi óeirðalögreglu á saklausa borgara. Ég vona bara að þeir verði allir enn saklausir að þessu loknu.
Þeir sem ekki eru saklausir sitja innan veggja þinghússins - missekir þó. Flestir þó sekir um að gera sér litla grein fyrir því hvaða áhrif þetta ástand, sem nú hefur varað mánuðum saman, hefur á fólkið í landinu. Mesta ábyrgð ber sjálfstæðisflokkurinn - óumdeilanlega - framsókn tók síðan undir þær hugmyndir sjálfstæðisflokksins sem urðu til þess að hlutirnir fóru eins og þeir fóru! Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bera síðan sameiginlega ábyrgð á þessu klúðri sem við stöndum uppi með núna - það er, að ekki hafi verið betur leyst úr málum!
En að aðalatriðinu - ég vona að allir, mótmælendur og lögregla, komist heilir heim eftir daginn!
Svæði við þinghúsið rýmt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.1.2009 | 22:05
Hvað varð um að sýna biðlund og skilning vegna "ástandsins"
Það eru erfiðir tímar fyrir skuldara í Árnessýslu - þeir hafa sérlega skeleggan sýslumann sem vílar ekki fyrir sér að senda lögregluna á eftir 370 manns í sömu vikunni! Þeir eru eflaust ófáir í þessu árferði sem eiga eftir að standa í svipuðum sporum og þetta fólk - besta ráðið við svona ógöngum er nokkuð einfalt, það er að mæta á staðinn, leggja spilin á borðið og bíða þess sem verða vill! Þeir sem kröfurnar eiga er oftast tilbúnir að sýna mikla biðlund, en til þess þarf skuldarinn að vera í góðu sambandi og "tutla" inn á skuldina, þegar færi gefst.
En í dag eru þannig tímar að fólk þarf að velta hverri krónu, allur kostnaður við rekstur heimilis er rokin upp úr öllu valdi, hvort heldur sem er afborganir, tryggingar, matvörur, fatnaður, tannlæknakostnaður og svo mætti lengi telja. Sem húsmóðir og fósturforeldri þriggja barna horfi ég stíft á hverja krónu áður en henni er eytt - verð að vera alveg viss um að henni sé vel varið. Hér áður rigndi langt upp í nasirnar á mér, en núna sést ég kaupa Bónus coctailsósu, tilboðs pakkningar af skinku og pylsum, ódýrasta klósettpappírinn og svo framvegis.
Sem atvinnurekandi í góðærinu gat ég leyft mér ýmislegt, keypti mér nýjan bíl á afborgunum og stóð í skilum, keypti líka nýtt sjónvarp og leikjatölvu fyrir jólin 2007 - ekki á afborgunum - gat svona nokkurn veginn gert það sem mig langaði til, þó ekki ætti ég hlutabréf eða stóran sjóð í banka. Nú þegar dregið hefur úr innkomunni, dregur hratt úr útgjöldunum, ekki hægt að fara í bíó hvenær sem er, ekki hægt að fara í verslunarferð og fata fjölskylduna upp fyrir tugi þúsunda. En mikið er ég nú samt hamingjusöm - því ég á ekki von á því að missa nýja bílinn eða fallega húsið mitt, því ég get enn staðið í skilum!
Sem atvinnurekandi ákvað ég síðan að í árferðinu ætti ég að sýna biðlund og skilning þeim sem skulda mér aura - í því skyni lækkaði ég vanskilakostnað reikninga, felldi niður seðilgjöld og hætti að senda reikninga í innheimtu hjá intrum og momentum - hver þarf á slíku að halda í dag? Í staðinn sendi ég viðskiptavinum mínum bréf og bað þá að vera í beinu sambandi við mig, gætu þeir ekki greitt á eindaga - semja beint við mig um skuldina, "halda henni í heimabyggð" eins og ég orðaði það.
Auðvitað eru til þeir sem standa ekki í skilum, hvort heldur sem góðæri eða kreppa bankar uppá! En eigum við hin það ekki skilið að vera hjálpað yfir þetta fjall - sem sérfræðingar segja að taki okkur tvö ár að klifra yfir.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2009 | 17:05
Tökum höndum saman - og gróðursetjum
Nú finnst mér að kalla mætti til allt það fólk sem titlað hefur sig náttúruverndarsinna síðastiliðinn ár - og bjóða því að liðsinna skógarbændum við gróðursetningu. Reyndar held ég að nóg sé til af fólki í landinu, náttúruverndarsinnum eður ei, sem myndi vilja forða þessum verðmætum frá ruslahaugunum! Til er ég.
Það má nú reyndar líka spyrja þeirrar spurningar hvort ekki mætti frekar gefa þessar plöntur!
Milljón trjáplöntur á haugana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)