31.1.2009 | 11:13
Vöndum til verka!
Mér finnst ég nú þurfa að byrja á því - eins og áður - að segja frá því að ég er stuðningsmaður Samfylkingarinnar! Það hefur nú ekki endilega verið auðvelt undanfarna mánuði, en fer batnandi. Nú finnst mér þó Samfylkingarfólk ekki mega hlaupa upp til handa og fóta þó að Framsóknarmenn vilji skýrari málefnasamning.
Það er gríðarlega mikilvægt á þessum tímapunkti að ganga hreint til verks - það er ekki langur tími til stefnu, en komandi stjórn fær ekki nokkurn vinnufrið nema það sé skýrt og vel upplýst að hverju hún muni vinna á þessum tíma.
Nú er rætt um það að Framsóknarflokkurinn skilji ekki hugtakið hlutleysi og að þeir misskilji stöðu sína. En þeir lofuðu því aldrei að vera hlutlausir - þeir sögðust hins vegar tilbúnir að verja stjórn S og VG falli að gefnum ákveðnum skilyrðum. Þeir hafa sett sín skilyrði og að því er virðist ekki ósanngjörn - í fjölmiðlum kemur fram að þeir vilji sjá hlutina skýrar setta fram í málefnasamningi, hann hafi verið of almennt orðaður og undir það geti þeir ekki skrifað.
Nú, frekar en nokkru sinni, er mikilvægt að við vöndum til verka - að stjórnvöld og þjóðin öll viti að hverju er stefnt á næstu mánuðum, hver verkefnin eru og hvernig þau verða unninn. Við ættum sennilega að þakka Framsóknarmönnum, frekar en að lasta þá, fyrir að hægja aðeins á okkur og krefjast betri vinnubragða. Þjóðin hefur liðið alltof mikið fyrir, oft á tíðum, forkastanleg vinnubrögð fyrri ríkisstjórnar.
Ósætti um aðgerðirnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.