Hægan, hægan!

Eigum við ekki að segja staðar numið núna - hrista aðeins hausinn og skankana og hvíla okkur smávegis?  Halda síðan áfram af fullum krafti, með því að berja potta og pönnur, standa þögul eða hvað eina annað - allt annað en að nota skemmdarverk og ofbeldi til að koma skoðunum okkar á framfæri.  Ég segi skoðunum okkar - því ég held að upp til hópa séum við sammála þeirri kröfu að fram fari kosningar og að hreinsað verði til í hinum ýmsu stofnunum sem tengjast fjármálageiranum.

Ég hef látið það vera, hingað til, að tjá mig um starfsaðferðir lögreglunnar.  Ástæðan er sú að mér finnst erfitt að meta það, sitjandi úti í sveit, hvort lögreglan hafi beitt lágmarksvaldi við allar aðstæður.  Lögreglan vill meina það - en maður hefur séð myndbandsbrot af lögreglumanni sem spreyjar piparúða yfir girðingu, að fólki sem honum virðist ekki standa nokkur ógn af.  Við verðum þó að reyna að skilja það að lögreglan er að sinna sínu starfi - og oft hefur mér sýnst að lögreglumenn hafi mikið langlundargeð, þar sem þeir standa í röð og og hlusta á fúkyrðaflaum meðan yfir þá rignir matvælum.

Ef við horfum á einstakan lögreglumann sem manneskju, manneskju sem hefur þurft að þola það sama og við hin.  Húsnæðislánið hefur hækkað, myntkörfulánið rokið uppúr öllu valdi, búið að skera niður alla auka- og yfirvinnu, kostnaður við rekstur heimilisins eykst með hverjum deginum.  Tökum þessa manneskju úr búningnum og stillum henni upp á Austurvelli - þykir okkur réttlætanlegt að umkringja hana, grýta hana með eggjum og skyri, skyrpa á hana og tala niður til hennar?

En lögreglumaðurinn er í búningnum að sinna starfi sínu og þar af virðist leiða að svona megi koma fram við þessa manneskju.  Í útvarpinu í morgun talaði maður sem sagði meiðsl þjóðarinnar mun alvarlegri en þau sem lögreglumenn urðu fyrir í nótt, ríkisstjórnin hefði beitt þjóðina mun alvarlegra ofbeldi.  Það má rétt vera - en eigum við þá að hengja skilti framan á lögreglumenn sem á stendur "lemdu mig ef þú ert ósáttur við ríkisstjórnina"?  Á lögreglan að verða að skotskífu fyrir almenning vegna vanhæfis ríkisstjórnarinnar?

Þetta er sennilega orðin langur og leiðinlegur lestur - og einhæfur.  Ég verð að taka fram að ég er ekki að mæla starfsaðferðum lögreglunnar bót - ég hef ekki forsendur til að meta þær, veit bara að mér finnst langt gengið!

Að lokum þakka ég málefnaleg innlegg í mína umræðu hingað til og vona að fólk geti áfram sett skoðanir sínar fram á skeleggan en kurteisan hátt.


mbl.is Lögreglumaður enn á sjúkrahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Framan af voru þetta fullkomlega friðsamleg mótmæli en alltaf þurfa nokkrir ruglaðir einstaklingar að eyðileggja fyrir hinum. Ég vildi óska þess að þeir gætu haldið sig heima svo við hin getum fengið að mótmæla í friði með okkar, trommur, potta og pönnur.

Það réttlætir ekkert árásir á lögreglumennina sem eru að reyna að vinna vinnuna sína. Ekki heldur skemmdarverkum á þinghúsinu okkar og stjórnarráðinu.

Notum rödd okkar, trommur, potta og pönnur til að hafa sem mestan hávaða. Það er það sem virkar. Ofbeldi og skrílslæti hamla því að fleiri mæti niður í bæ til að taka þátt. Þeir vilja ekki vera bendlaðir við það. Ofbeldisseggirnir eru að eyðileggja fyrir okkur hinum og málstaðnum.

Sigga (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 09:39

2 identicon

Svo hjartanlega sammála.

Þeir sem henda gangstéttarhellum í lögreglumenn eiga ekkert erindi á mótmælafund!

Magga (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 10:12

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég mótmæli öllu ofbeldi og hef nú sett um hálsinn á mér appelsínugulan kjólgarm til að árétta það. Megum ekki láta óvita hvort sem þeir finnast í röðum mótmælenda eð lögreglunnar skemma fyrir okkur baráttuna fyrir réttlæti og spillingunni sem gegnsýrir þetta samfélag okkar. Stöndum saman í appelsinugulu.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 22.1.2009 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband